Hæ, ég heiti Hrafnhildur J. Moestrup og er andlegur einkaþjálfari.

Ég er algjör ævintýrakona og gjörsamlega elska lífið, með öllum sínum upp- og niðursveiflum. Eins og eftirnafnið gefur örlítið til kynna að þá er ég hálf dönsk (föðurætt) og hálf íslensk (móðurætt).  Ég á tvö dásamleg börn og er búsett í Haag í Hollandi. Ég er með brennandi áhuga á öllu sem viðkemur andlegri heilsu  og tel það vera allra besta formið sem við getum verið í um ævina! Ég er svo lánsöm að fá að lifa tilganginn minn í þessu lífi og starfa við það sem ég elska, sem er að leiðbeina öðrum að líða margfalt betur með sjálfan sig og lífið almennt.  Það er magnað að fá að vera samferða þessum einstaklingum sem til mín leita og vera ogguponsulítill partur af þeirra andlegu vegferð. 

Ef þú ert í vanlíðan af einhverjum ástæðum og ert búin/n að fá upp í kok á því að líða illa, haltu þá áfram að fræðast um andlega einkaþjálfun og brot úr “minni sögu” hér fyrir neðan. Það er þinn fæðingaréttur að lifa lífinu í mun meiri vellíðan, með aukna hugarró og lífsgleði. Það er hins vegar þitt val að halda þér fastri/föstum í vanlíðan. 

Ef þú ert tilbúin/n fyrir breytingar í þínu lífi ekki hika við að hafa samband á hrafnhildur@andlegeinkathjalfun.is 

Ég tek svo sannarlega vel á móti þér!

Knús, 
Hrafnhildur

Brot úr minni sögu

Fyrir um það bil 6 árum síðan var ég sjálf í allsherjar tilvistarkreppu og þurfti að gera róttækar breytingar á mínu lífi. Ég hafði lengi haft sterka tilfinningu að ég væri ekki að lifa því lífi sem mér væri ætlað og var eirðalaus í leitinni að tilganginum mínum. Ég var sífellt leitandi og hoppaði úr einu í annað til þess að reyna að fylla upp í þetta tómarúm sem ég fann fyrir.  Ég fann mig einhvern veginn hvergi og fannst ég ekki passa neinsstaðar inn.  En það var svo sem ekkert skrítið að ég fann aldrei það sem ég var að leita að, þar sem ég var að leita á kolvitlausum stöðum og allsstaðar fyrir utan sjálfan mig. Það var ekki fyrr en ég fór að beina leitinni eingöngu hið innra með mér að svörin komu til mín á færibandi. Það þýðir hins vegar ekki að það hafi gerst á stuttum tíma, heldur hefur það tekið mörg ár með markvissri sjálfsrækt. Ég þurfti að leggja upp í þessa andlegu vegferð og það má segja að ég hafi “vaknað” fyrst fyrir alvöru fyrir 6 árum síðan, en hef síðan þá passað vel upp á að halda mér vakandi og í andlegu formi. 

En hver er ég?
Það er svo magnað að hugsa til þess hversu ólík ég er þeirri manneskju sem hóf sína andlegu vegferð fyrir 6 árum síðan. Mér líður eins og ég sé að tala um tvær ólíkar mannskjur, því svo mikil er breytingin. 

Þegar ég klessti á minn “vegg” var ég bara einfaldlega búin að fá nóg af sjálfri mér og minni sjálfseyðingarhvöt, en ég var vön að eyðileggja margt fyrir sjálfri mér. Ég var föst í vítahring og vissi ekki hvernig ég kæmist þaðan upp. Alveg frá þeim degi sem ég steig fyrst inn í 6 ára bekk í grunnskóla hafa námsörðuleikar fylgt mér og alla leið upp í háskólanám. Ég var með svo neikvætt sjálfstal og sjálfsniðurrif í tengslum við nám að það var með ólíkindum að ég hafi yfirhöfuð náð einhverjum prófum. Ég var búin að búa mér til ofsakvíða í kringum próf og hugurinn minn leyfði mér einfaldlega ekki að læra fyrir þau, því ég var að mata hann með gömlu og löngu úreltu hugsanakerfi að ég gæti ekki lært og ætti aldrei eftir að ná prófunum. Ég get ekki lýst því hversu vond tilfinning vonbrigðin voru í hvert einasta skipti þegar ég féll í prófi eða endurtökuprófi. Áts! Stanslaus vonbrigði yfir sjálfum þér og sjálfsniðurrifs stefið sönglaði hátt í huganum. Á háskólastigi fór ég að hugsa að þetta gæti bara ekki átt að vera svona erfitt, það ætti ekki að vera svona erfitt að læra námsefnið og ég horfði á aðra í kringum mig rúlla námsefninu upp. Var ég bara svona vitlaus? En það er algeng hugsun hjá fólki með námsörðugleika. Ég ákvað því að skella mér í greiningu hjá sálfræðingi og athuga hvort ég væri með athyglisbrest og það kom auðvitað í ljós að ég er með athyglisbrest á háu stigi. Þegar ég hugsa tilbaka er það mjög skýrt og sorglegt að hugsa til þess að aðeins 8 ára gömul féll ég í mínu fyrsta prófi og skyldi engan veginn af hverju ég gæti ekki lært eins og hinir krakkarnir. Í þá daga voru engar greiningar eða leiðir til að skilja þetta betur og ég varð því “tossi” í tossabekk. Það var ákveðinn léttir að fá loksins staðfestingu að það gæti verið skýring á bakvið alla erfiðleikana í námi. Hins vegar fer ég bæði til sálfræðingsins og síðar til geðlæknis sem staðfestir athyglisbrestinn á núll einni og skrifar upp á lyf fyrir mig. Kviss bang búmm og ég er komin með lyfseðil. Ég prófaði að taka lyfin í ca. mánuð en stoppaði þá því innsæið mitt sagði mér að þetta væri einfaldlega ekki leiðin, jú kannski auðvelda leiðin en ekki sú leið sem myndi veita langvarandi lausn á mínum málum. Í hvorugum tímunum hjá sálfræðingnum eða geðlækninum spurðu þau mig um neitt sem skipti raunverulega máli og þau köfuðu ekkert dýpra í mín mál. Ég hef ekkert á móti lyfjum og tel þau vera nauðsynleg í mörgum tilfellum. En í flestum tilfellum eru  undirliggjandi vandamál sem nauðsynlegt er að vinna með og að gefa lyf eitt og sér mun aldrei veita langtíma lausn.  Ég fór því að leita lausna fyrir sjálfan mig án lyfja og í dag get ég auðveldlega lifað með athyglisbrestinum og pæli í rauninni afar sjaldan í því að ég sé með athyglisbrest yfirhöfuð því hann er ekki að trufla mig lengur. Með því að kafa langt aftur í æsku og kryfja ótal atriði, henda út ruslinu í mínum huga og mata hugann frekar með uppbyggjandi og jákvæðara efni, ásamt því að vinna markvisst að því að ná mun betri tökum á huganum og mínum hugsunum að þá hef ég öðlast mun meiri hugarró. Í því hugarumhverfi virðist athyglisbresturinn ekki vilja næra sig mikið á og ég sé algjört samasem merki þegar hugurinn er í miklu ójafnvægi að þá vill athyglisbresturinn meiri athygli.   

Námsörðuleikarnir voru upphafspunkturinn að ég fór að vinna í mínum málum og var í rauninni bara toppurinn á ísjakanum.  Pandóruboxið opnaðist, allt kom upp á yfirborðið sem ég þurfti að vinna með og eftir margra ára sjálfsrækt er ég með laufléttan huga og innri ró. Ég hef náð að gera algjöra U-beygju á mínu lífi, en hér áður fyrr var ég að eiga við kvíða, þunglyndi, depurð, var tilfinningalega dofin, var með 20 kg. af æsku á mínum herðum, sjálfsniðurrif af ýmsum toga, átti í krefjandi samskiptum við vissa aðila í mínu lífi, lifði með innbyrða reiði og pirring, ásamt ýmsu öðru.  Ég get ekki lýst því hversu góð tilfinning það er að vera búin að ná mun betri tökum á mínum huga og líðan. Ég elska lífið með öllum sínum upp- og niðursveiflum. Það er algjörlega “priceless” Ég deili síðan reynslusögum úr mínu lífi á námskeiðunum og hvernig ég hef sjálf nýtt þessa nálgun til að snúa þessu öllu við. 

Ég er með óbilandi löngun að hjálpa öðrum að sjá fegurðina í sér,  öðru fólki og fegurðina við lífið almennt.  Ég veit að lífið getur verið krefjandi, en krefjandi kaflar í lífinu þurfa svo sannarlega ekki að þýða erfitt líf. En það er ekki gefið að átta sig á því sjálfur hvernig við vinnum með þessi lífsverkefni sem við fáum í hendurnar. Það er því svo  mikilvægt að skilja sjálfan sig vel, þekkja sig, sínar tilfinningar til að vera sem best undir það búinn að taka á móti öllu því sem lífið hefur upp á að bjóða, bæði það jákvæða og neikvæða. 

“Ekki kveðja þetta líf með tónlistina ennþá innra með þér”
Dr. Wayne W Dyer

Af hverju get ég leiðbeint þér?

Því ég veit fyrir víst hversu erfitt það getur verið að leita sér aðstoðar, ég hef sjálf verið í þeim sporum. Ég man ennþá tilfinninguna að þurfa að hringja og panta tíma hjá sálfræðingi og tilhugsunin að þurfa síðan að mæta á staðinn og fara í tíma. Ég var svo hrædd um að einhver myndi sjá mig á biðstofunni og hvað átti ég þá að segja? Já, ég var stödd þar með sjálfan mig og vildi ekki að nokkur maður myndi vita að ég, fröken jákvæð.is væri í einhverri vanlíðan og þyrfti á aðstoð að halda. Ég var í algjörum feluleik og var einfaldlega ekki tilbúin að deila með öðrum hvernig mér leið í raun og veru. En á þessum tímapunkti var ég með bullandi kvíða og mér fannst hugur minn ekki ná utan um eina einustu hugsun. Þar sem ég greindi sjálfa mig með kvíða þá hóf ég mína vegferð hjá Kvíðameðferðarstöðinni, en eftir aðeins tvo tíma þar sá ég að þetta var ekki nálgun sem hentaði mér, en var staðráðin að láta þar ekki staðar numið því ég var “on a mission” í átt að betri andlegri líðan og með markmið um að koma sjálfri mér í mitt allra besta andlega form.  Eitthvað sem mér hafði aldrei dottið í hug áður að gera.

 

Andlega vegferðin mín var hafin og það var ekki aftur snúið. Ég var svo ótrúlega heppin að vera með dásamlega manneskju í mínu lífi sem var sjálf í tímum hjá konu sem bjó út á Balí og var að kenna þerapíu sem kallaðist “Lærðu að elska þig”. Ég man að mér þótti titillinn heldur væminn fyrir minn smekk, en ákvað að slá til og mikið svakalega er ég þakklát sjálfri mér að hafa lagt upp í þá vegferð. Hún görsamlega umturnaði mínu lífi , sko ég meina algjöra U-beygju! Ef ég miða sjálfa mig í dag og þegar ég hóf mína andlegu vegferð, þá er varla mikið eftir að “gömlu” Hrafnhildi, sem var stútfull af neikvæðni, neikvæðum hugsunum, með sjálfsniðurrifs stefið sönglandi í huganum, með 20 kg. af æsku á herðunum, í erfiðum samskiptum, í bullandi vörn, með kvíða, þunglyndi, depurð, tilfinningalega köld og dofin og því miður ótal margt fleira. Í dag hef ég kvatt þetta nánast allt þó að auðvitað ég eigi mína góðu og slæmu daga eins og allir á þessari jörð, en þá er ég ekki með neitt af þessu í eftirdragi. Ég hef fyllt á kærleiks tankinn, er full af lífsgleði og hamingju!

Það er ekkert smá góð tilfinning að vera í andlegu formi sem er að mínu mati besta formið sem þú getur verið í. Nú er það mitt markmið að halda mér í hárri orku, lifa lífinu lifandi og hjálpa öðrum að gera slíkt hið sama!

Ég get því svo sannarlega leiðbeint þér að snúa þínu lífi við ef þú ert tilbúin/n að hefja þá vegferð! Þetta gerist nefnilega ekki að sjálfum sér og engin skyndilausn getur komið þér þangað.  Það liggur mikil sjálfsrækt þarna á bakvið og það er vinna sem flestir leggja aldrei upp í. Verður þú ein/n að þeim sem ferð í gegnum lífið án þess að vita raunverulega hver þú ert í kjarnanum þínum, hvað þig langar og hvert þú ert að stefna?


Ég get leiðbeint þér ef:

 

– Þú ert föst/fastur á stað sem þú vilt ekki vera á en einhverra hluta vegna kemst ekki þaðan upp
– Þú ert týnd/ur í lífinu
– þú ert alltaf leitandi að einhverju en veist í raun ekki hverju þú ert að leita að
– Þú ert á krossgötum í lífinu
– Þú varst að skilja við maka þinn og ert reið/reiður eða hugur þinn fullur af neikvæðni
– Þú ert með æskuna/fortíðina á þínum herðum en veist ekki hvernig þú átt að vinna með hana og losa þig við neikvæðar hugsanir
– Þú þarft nauðsynlega á hugarfarsbreytingum að halda (með meiri neikvæðni í huganum en jákvæðni)
– Þú ert með sjálfsniðurrifs stefið sönglandi í huganum og ert að efast um eigið ágæti.
– Þú ert með sjálfshatur, sjálfs gagnrýni eða óánægð/ur með sjálfan þig
– Þú ert að upplifa kvíða
– Þú ert að upplifa þunglyndi eða depurð
– Þú átt í erfiðum samskiptum við aðra í kringum þig
– Þú ert orðin/n þreytt/ur á því að vera í vanlíðan
– Þú vilt breytingar í þínu lífi
– þú ert tilbúin/n að upplifa meiri hamingju í lífinu
– Þú  ert tilbúin/n fyrir meiri vellíðan
– Þú ert tilbúin/n að leyfa þér að blómstra í lífinu
– Þú ert tilbúin/n!

 

Ég tek vel á móti þér!

Skráning:
hrafnhildur@andlegeinkathjalfun.is

Menntun

Leiðbeinandi í þerapíunni Lærðu að elska þig 
eftir Guðbjörgu Ósk Friðriksdóttur 

Háskóli Íslands
Viðskipta kínverska ( 1 ár ) 

Háskólinn í Reykjavík
Viðskiptafræði (2,5 ár)
Bsc ritgerð: Mikilvægi menningarlæsis fyrir viðskipti milli Íslands og Kína 

Scroll to Top